Ferill 946. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2025  —  946. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð af námslánum.


     1.      Telur ráðherra það koma til greina að lántakar greiði lögbundið iðgjald í lífeyrissjóð af námslánum og að Lánasjóður íslenskra námsmanna greiði mótframlag fyrir þá?
    Fram til ársins 1992–1993 gátu umsækjendur um námslán óskað eftir að greiða iðgjald í Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Hlutur námsmanna í iðgjaldi var 4% af framfærsluláni sem var dregið frá námsláni við útborgun. Lánasjóður íslenskra námsmanna lánaði aukalega til námsmanna fyrir mótframlaginu, sem var 6% af framfærsluláninu. Með þessum hætti tóku námsmenn hærri námslán en fengu lægri framfærslulán greidd út. Þegar lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, voru samþykkt var hætt að lána námsmönnum fyrir iðgjaldi í lífeyrissjóði. Lögin breyttu stuðningi ríkisins til námsmanna í veigamiklum atriðum, þá einkum fyrirkomulagi um endurgreiðslur, vexti og útborgunartíma námslána sem og breyttar kröfur um námsframvindu námsmanna. Samtímagreiðslum var hætt en þess í stað var tekinn upp vaxtastyrkur til námsmanna sem vegur upp kostnað þeirra vegna lánafyrirgreiðslu bankanna þar til námslán eru greidd út eftir hverja önn eða skólaár.
    Heildarendurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna er í vinnslu og áætlað er að leggja fram frumvarpsdrög í opið samráð á Samráðsgáttinni í júlí. Í þeim drögum er ekki gert ráð fyrir að lánasjóðurinn láni námsmönnum til viðbótar við framfærslu eða skólagjöld til að geta greitt iðgjald í lífeyrissjóði.

     2.      Hvað mundi það kosta lánasjóðinn á ársgrundvelli að greiða lögbundið mótframlag í lífeyrissjóð fyrir alla núverandi lántaka?
    Mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóð hækkaði um 1,5% hinn 1. júlí 2018 og er nú orðið 11,5%. Miðað við framfærslulán Lánasjóðs íslenskra námsmanna á árinu 2018 næmi kostnaður hans vegna greiðslna í lífeyrissjóð á bilinu 550–600 millj. kr.